Nýjast á Local Suðurnes

Stutt í keppnisskapið á vinadegi yngri flokka Keflavíkur og Njarðvíkur – Myndir!

Um helgina fór fram fyrsti Keflavíkur-Njarðvíkur dagurinn í körfubolta þegar Körfuknattleiksdeild Keflavíkur í samstarfi við Humarsöluna ehf bauð nágrönnum sínum í Njarðvík til leiks í TM-Höllina í Keflavík. Um 350 brosandi börn á aldrinum 4 ára til 12 ára voru mætt til leiks á þennan vinadag félaganna og þótti umgjörð og skipulag dagsins takast til með eindæmum vel, en fyrirhugað er að halda þennan dag árlega í upphafi árs.

„Okkur fannst mikilvægt að hefja árið 2018 með flottum körfuboltadegi þar sem krakkarnir í Reykjanesbæ fengju að njóta sín í vinaleikjum, þó það sé nú auðvitað stutt í keppnisskapið eins og ávallt er þegar þessi tvö lið mætast. Það má segja að þetta hafi verið hraðmót þar sem öll lið spila 3-4 leiki á um klukkustund og síðan skellti sami aldurshópurinn sér í pizzuveislu að leik loknum“ sagði Sylvía Þóra Færseth meðlimur í hópnum Allir í körfu, sem settur var á laggirnar af barna og unglingaráði körfuknattleiksdeildar Keflavíkur haustið 2017. Aðal markmið þessa hóps er að koma þeim skilaboðum áleiðis að körfubolti sé skemmtileg íþrótt sem opin er öllum börnum og unglingum.

Mikill fjöldi barna æfir hjá þessur tveimur félögum og á síðasta keppnistímabili áttu þessi tvö lið nokkra Íslandsmeistartiltla í yngri flokkum og er því ljóst að framtíðin er björt í körfuboltabænum Reykjanesbæ.

Hér fyrir neðan er að finna fjölmargar myndir af körfuboltafólki framtíðarinnar. Hægt er að smella á myndirnar og fá þannig betri upplausn.