Nýjast á Local Suðurnes

Slappir Grindvíkingar komnir í sumarfrí

Wayne Garcia skoraði aðeins 4 stig í kvöld og er væntanlega á heimleið

Það voru andlausir Grindvíkingar sem mættu til leiks í DHL-höll þeirra KR-inga í þriðja leik liðanna í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í körfuknattleik. Leikurinn náði aldrei að verða spennandi og lauk með sigri KR-inga, 83-62.

KR-ingar höfðu tólf stiga forskot að loknum 1. leikhluta, 24-12 og strax var ljóst í hvað stefndi. Grindvíkingar náðu ágætis kafla í 2. leikhluta án þess þó að Wayne Garcia, erlendur leikmaður liðsins kæmist á blað. Staðan í leikhléi 41-27 fyrir KR.

Það sama var upp á stöðunni í síðari hálfleik, KR-ingar höfðu öll völd á vellinum, fyrir utan stutt kæruleysistímabil í þriðja leikhluta, þar sem menn voru að reyna allskyns trikk og skiptingar, það dugði Grindvíkingum þó ekki til að komast í takt við leikinn að neinu ráði. Öruggur sigur KR-inga var síst of stór og Grindvíkingar eru komnir í frí.

Ómar Örn Sævarsson skoraði 17 stig fyrir Grindvíkinga og Þorleifur Ólafsson 10, athygli vakti að Wayne Garcia komst ekki á blað í fyrri hálfleik og skoraði einungis 4 stig í leiknum.