Nýjast á Local Suðurnes

“Skítamark” minnkar líkurnar á að Keflavík haldi sér uppi

Það var af skondnari gerðinni markið sem skildi Keflavík og KR að í leik liðanna á Nettó-vellinum í kvöld, Jacob Schoop gaf fyrirgjöf inn á teig Keflvíkinga og virtust heimamenn ná að bægja hættunni frá en boltinn fór í Pálma Rafn Pálmason og þaðan lak hann löturhægt inn í markið, sannkallað heppnismark.

Leikur Keflvíkinga var ágætur á köflum í kvöld og liðið sýndi frá fyrstu mínútu að það ætlaði að selja sig dýrt á móti KR enda öll stig mjög svo mikilvæg fyrir liðið um þessar mundir. KR-ingar voru ívið sterkari aðilinn í leiknum og áttu til að mynda tvö skot í slá en Keflvíkingar beittu fínum skyndisóknum þó ekki hafi þeir náð að setja mark.

Keflvíkingar geta þó huggað sig við það að leikur liðsins er að skána og það hefði jafnvel verið sanngjarnt að þeir fengju eitthvað út úr þessum leik en svona er fótboltinn, hlutirnir virðast ekki falla með Keflvíkingum þetta tímabilið.

“Ekki nokkur spurning að við áttum stig skilið út úr þessum leik. Mér fannst við leggja okkur fram og vera þéttir heilt yfir. Við fáum hinsvegar á okkur skítamark sem er ömurlegt og kannski saga sumarsins hjá okkur, það fellur voðalega lítið með okkur og lukkan hefur aldrei verið með okkur í liði.” Sagði Haukur Ingi Guðnason annar þjálfara Keflavíkur í samtali við Vísi.is.

Næsti leikur Keflvíkinga verður að teljast gríðarlega mikilvægur en þeir leika gegn ÍBV, sem er í næst neðsta sæti þann 30. ágúst í Vestmannaeyjum.