Nýjast á Local Suðurnes

Ragnheiður Sara hefur þénað milljónir á crossfitkeppnum

Skatturinn tekur sitt

Árangur Ragnheiðar Söru Sigmundsdóttur á heimsleikunum í crossfit sem fram fóru í Kaliforniu í lok júlí hefur vart farið framhjá nokkrum Suðurnesjamanni, en hún lenti sem kunnugt er í þriðja sæti á leikunum eftir að hafa verið í forystu nær alla keppnisdagana.

Hún bætti svo í sarpinn og sigraði á “The Granite Games 2015” sem fram fóru í Minnesota í Bandaríkjunum um síðustu helgi, sigurinn á leikunum kom á góðum tíma því Ragnheiður Sara fagnaði 23ja ára afmæli sínu sama dag, eða þann 12. september.

sarasigmunds17

Ragnheiður Sara endaði í 3. sæti á heimsleikunum í crossfit og fékk í sinn hlut rétt um 8.000.000 króna

Verðlaunafé í crossfit hefur hækkað umtalsvert

Fyrir heimsleikana tilkynntu skipuleggjendur um töluverða hækkun á verðlaunafé, sem kom sér vel fyrir Ragnheiði Söru sem endaði í 3. sæti leikanna og fékk í sinn hlut 60.000 dollara eða rétt tæpar átta milljónir króna. Þar að auki sigraði hún eina grein á leikunum og fékk fyrir það tæpar 400.000 krónur.

Þá sigraði Ragnheiður Sara svæðiskeppni (regionals) fyrir leikana sem skilaði henni um 600.000 krónum í verðlaunafé. Heimsleikarnir í crossfit skiluðu Ragnheiði Söru því rétt um níu milljónum króna í verðlaunafé.

sara granite games

Ragnheiður Sara á “The Granite Games 2015” sem hún sigraði á afmælisdegi sínum

Sigurinn á “The Granite Games” bætti svo rúmum þremur milljónum við það verðlaunafé sem íþróttakonan unga hefur sankað að sér á árinu, samtals hefur hún því unnið sér inn að minnsta kosti um tólf milljónir króna það sem af er ári. Ragnheiður Sara hefur að auki sigrað á nokkrum smærri mótum auk þess sem árangurinn hefur skilað henni öflugum styrktaraðilum eins og íþróttvörurisanum Nike, þannig að gera má ráð fyrir að crossfitið hafi skilað henni hærri tekjum á árinu.


Hér ráðleggur íþróttkonan unga aðdáendum sínum um hvernig best sé að æfa.

Skatturinn tekur sitt

Verðlauna­fé sem þetta er skatt­skylt hér­lend­is líkt og aðrar tekj­ur og því má gera ráð fyr­ir að Ragnheiður Sara fái ekki allt verðlauna­féð í hend­urn­ar, en hún er með skráð lög­heim­ili hér­lend­is. Þegar verðlauna­fé þessa árs er skipt niður á mánuði og sett í reikni­vél rík­is­skatt­stjóra má sjá að af þess­um rúm­lega 12 millj­ón­um þarf hún að greiða tæplega 5,5 millj­ón­ir í skatt en held­ur eft­ir rúm­lega 6,5 millj­ónum. Það ger­ir um 550.000 krónur í mánaðar­tekj­ur af íþróttinni.

Vekur mikla athygli í crossfitheiminum

Það er óhætt að segja að Ragnheiður Sara hafi vakið mikla athygli í crossfitheiminum fyrir undraverðan árangur á skömmum tíma en einungis örfá ár eru síðan hún byrjaði að stunda íþróttina og líður varla sá dagur að ekki sé fjallað um hana á hinum ýmsu miðlum sem flytja fréttir af íþróttinni og nær undantekningarlaust er henni spáð einu af efstu sætunum í þeim mótum sem framundan eru.

það verður skemmtilegt að fylgjast með íþróttakonunni ungu á komandi árum en ef fram heldur sem horfir mun hún án efa bæta árangur sinn í íþróttinni til muna.