Nýjast á Local Suðurnes

Ragnarök keppa gegn Come On Bear í hjólaskautaati í Garði

Laugardaginn 14. apríl næskomandi mun fara fram keppni í hjólaskautaati (roller derby) í íþróttamiðstöðinni í Garði, en þá tekur Ragnarök á móti franska liðinu Come On Bear.

Íþróttin er ný af nálinni hér á landi, en á sér langa sögu, eins og sjá má neðst í fréttinni. Með endurvakningu íþróttarinnar í Texas árið 2001 og færslu hennar yfir á flata braut varð hún aðgengileg skauturum út um allan heim, meðal annars hér á Íslandi.

Roller derby eða hjólaskautaat er háhraða snertiíþrótt þar sem keppt er á hjólaskautum (ekki línuskautum). Í meginatriðum gengur íþróttin út á það að safna sem flestum stigum með því að hringa andstæðingana og eru keppendur mjög vel varðir þegar verið er að skauta þar sem það er mikið harðar snertingar í hjólaskautaati. Til þess að mega að æfa íþróttina þarf að klæðast hnéhlífum, olnbogahlífum, úlnliðshlífum, munnvörn og bera hjálm.

Í tilkynningu kemur fram roller derby píurnar í Ragnarökum munu taka yfir Sveitarfélagið Garð þar sem þær mæta franska liðinu Come On Bear á átta hjólum og mun keppnin hefjast klukkan 14:30.

Hægt verður að kaupa miða við hurð á 1000 kall og frítt er inn fyrir 12 ára og yngri. Það verður posi á staðnum.