Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvíkursigur í alvöru “El Classico”

Erlend og innlend lið hafa áhuga á að fá Hauk Helga í sínar raðir

Það voru hraði og spenna sem einkenndi grannaslag Keflavíkur og Njarðvíkur þegar liðin áttust við í Dominos-deildinni í körfuknattleik í kvöld. Fyrir leikinn í TM-Höllinni í kvöld voru Keflvíkingar einir á toppnum en Njarðvíkingar þurftu á sigri að halda til að blanda sér í toppbaráttuna af einhverri alvöru.

Þrátt fyrir kröftuga byrjun Keflvíkinga voru það Njarðvíkingar sem leiddu nær allan fyrsta leikhluta, þökk sé fyrna sterkum varnarleik með Loga Gunnarsson fremstan í flokki. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 21-23.

Liðin voru ekkert að slaka á í öðrum leikhluta og baráttan var enn í fyrirrúmi, sterkur varnarleikur Njarðvíkinga hélt Keflvíkingum í skefjum sóknarlega í fyrri hluta fjórðungsins. Keflvíkingar náðu svo undirtökunum undir lokin og komust fjórum stigum yfir fyrir leikhlé, 43-39.

Keflvíkingar keyrðu hratt á Njarðvíkinga í þriðja leikhluta og áttu þeir síðarnefndu í töluverðum vandræðum með að halda Keflvíkingum í skefjum, enda juku þeir forskot sitt í 15 stig á skömmum tíma. Njarðvíkingar náðu þó að minnka munin niður í níu stig fyrir loka leikhlutann.

Njarðvíkingar komu sterkir inn í fjórða leikhluta og náðu jafnt og þétt að minnka munin og jöfnuðu leikinn þegar um þrjár og hálf mínúta var eftir. Haukur Helgi og Logi Gunnarsson áttu frábærar lokamínútur í áhlaupi Njarðvíkinga sem Keflvíkingar áttu fá svör við og sigu Njarðvíkingar framúr og tryggðu sér 86- 92 sigur í stórskemmtilegum leik.

Haukur Helgi Pálsson átti stórleik fyrir Njarðvíkinga í sínum fyrsta “El Classico” skoraði 24 stig, tók 12 fráköst og átti 6 stoðsendingar, nýji maðurinn í herbúðum liðsins, Jeremy Martez Atkinson skoraði 18 stig og tók 10 fráköst, Logi  Gunnarsson skoraði 17 og Oddur Rúnar Kristjánsson skoraði 12.

Hjá Keflvíkingum var Reggie Dupree atkvæðamestur með 22 stig, Earl Brown Jr. skoraði 19 stig og tók 13 fráköst og Magnús Már Traustason skoraði 12 stig.