Nýjast á Local Suðurnes

Launakostnaður Keflavíkur um 130 milljónir króna – Mestur hagnaður hjá Njarðvík

Launakostnaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur var tæplega 130 milljónir króna fyrir árið 2018, en liðið endaði tímabilið í neðsta sæti Pepsí-deildarinnar. Hjá Grindavík nam launakostnaðurinn rétt um 100 milljónum króna, en liðið endaði í 10 sæti sömu deildar og hjá Njarðvík var launakostnaður rúmar 30 milljónir króna og endaði liðið í 6. sæti Inkasso-deildarinnar.

Þetta kemur fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins um rekstur knattspyrnufélaga hér á landi. Í umfjölluninni má sjá að rekstrarniðurstaða knattspyrnudeildanna þriggja var einnig misjöfn, en Keflavík skilaði milljón króna hagnaði á meðan Grindavík tapaði níu milljónum króna. Njarðvíkingar sýndu bestu afkomutölurnar, en knattspyrnudeildin hagnaðist um sex milljónir króna. Til samanburðar má geta þess að Valur hagnaðist um 85 milljónir króna á meðan FH og Breiðablik töpuðu um 16 milljónum króna á síðasta ári.