Nýjast á Local Suðurnes

Kristinn kominn með leikheimild – Tóku lán og söfnuðu fyrir uppeldisbótum

Njarðvíkingar hafa greitt uppeldisbætur sem liðið var dæmt til að greiða fyrir Kristinn Pálsson og hefur hann því fengið leikheimild og getur því leikið með liðinu þegar það mætir Þór frá Akureyri í Ljónagryfjunni í kvöld.

Hátt í 100 einstaklingar hafa lagt félaginu lið við þessar aðstæður og mun stjórn vinna hörðum höndum að því að ljúka málinu sem fyrst og gera upp við lánveitendur, segir í tilkynningu frá Kkd. Njarðvíkur. Þar segir einnig að deildin hafi þurft að taka lán vegna niðurstöðu dómsins. Þá þakka Njarðvíkingar fyrir glæsilegt framtak sem Lárus Ingi Magnússon gangsetti í gær og hefur gert það að verkum að ríflega helmingur upphæðarinnar hefur þegar safnast sem er stórkostlegt. Fyrir það verður aldrei nógsamlega þakkað, segir í tilkynningunni.

Aðgangur verður ókeypis í Ljónagryfjuna í kvöld þar sem fólk getur líka komið og gætt sér á ljúffengum borgurum fyrir leik. Þá munu iðkendur úr yngri flokkum Njarðvíkur taka þátt í upphitun leiksins og setja stórskemmtilegan svip á alla umgjörðina.