Nýjast á Local Suðurnes

Keflvíkingar fengu skell í Kópavogi

Það á ekki af Keflvíkingum að ganga í botnbaráttu Pepsí-deildarinnar í knattspyrnu, liðið sem hefur fengið til sín fimm nýja leikmenn á síðustu vikum tapaði gegn liði Breiðabliks í Kópavogi í kvöld 4-0. Vörnin var veiki hlekkur liðsins í kvöld, eins og oft áður og hefur liðið nú fengið á sig 37 mörk í 14 leikjum.

Keflvíkingar héldu í við Blika í upphafi leiks og áttu ágætis spretti inn á milli en eftir tvö mörk þeirra grænklæddu á tveimur mínútum var allur vindur úr liði Keflvíkinga og sigur Blika var aldrei í hættu, þeir bættu við marki fljótlega eftir leikhlé og fullkomnuðu svo rassskellinguna á niðurbrotnu Keflavíkurliði um miðjan hálfleikinn, 4-0 og Keflvíkingar sitja enn sem fastast við botninn með 5 stig.

Önnur úrslit botnliðana voru Keflvíkingum heldur ekki hliðholl því Leiknismenn hirtu þrjú stig gegn Stjörnunni og Víkingar náðu í eitt stig gegn Akurnesingum. ÍBV tapaði gegn Fylki í Eyjum og eru því komnir í næst neðsta sæti deildarinnar, sex stigum fyrir ofan Keflavík.