Nýjast á Local Suðurnes

Jesus á förum frá Grindavík

Spænsku leikmennirnir Alejandro Jesus Blazquez Hernandez og Angel Guirado Aldeguer eru báðir á förum frá Grindavík. Þetta staðfesti Óli Stefán Flóventsson þjálfari liðsins í samtali við Fótbolta.net í gær.

Jesus er vinstri kantmaður en hann skoraði tvö mörk í sautján leikjum í sumar. Angel er framherji en hann kom til Grindvíkinga í júlí og skoraði fimm mörk í sjö leikjum.

Grindvíkingar eru hins vegar í viðræðum við Maciej Majewski og Rodrigo Gomes Mateo um að vera áfram hjá liðinu.

Majewski er pólskur markvörður og Rodrigo er Spánverji sem getur spilað aftarlega á miðjunni eða í vörninni. Þeir komu báðir frá Sindra með Óla Stefáni fyrir ári síðan.

Óvíst er með framtíð Tomislav Misura en hann á ár eftir af samningi. Tomislav kom fyrst til Íslands árið 2005 þegar hann skoraði með Neftci Baku gegn FH í Meistaradeildinni..

Þessi 34 ára gamli Slóveni kom til Grindavíkur fyrir síðasta tímabil og gerði tveggja og hálfs árs samning. Tomislav skoraði sjö mörk í fyrstu deildinni í sumar eftir að hafa skorað fimm mörk þar í fyrra.