Nýjast á Local Suðurnes

Inga María Norðurlandameistari í kraftlyftingum

Norðurlandamót unglinga í kraftlyftingum og klassískum kraftlyftingum fór fram um helgina í Katrineholm í Svíþjóð og voru 10 íslenskir keppendur skráðir til leiks á mótunum tveimur. Íslenski hópurinn stóð sig með sóma á mótinu og kom heim með 4 gull, 1 silfur og 2 bronsverðlaun auk þess sem hópurinn bætti fjölda Íslandsmeta.

Inga María Henningsdóttir keppti fyrir hönd Lyftingardeildar Massa og gerði sér lítið fyrir og varð Norðurlandameistari í -84 kg. flokki, en hún lyfti 350 kg.. Inga María þurfti að leggja töluvert á sig til þess að komast upp í -84 kg. flokk, meðal annars huga vel að mataræði og þjálfa mjög taktískt en hún keppir venjulega í -72 kg. flokki, en hún er núverandi Íslandsmeistari unglinga í þeim flokki.

Inga María var valin lyftingakona ársins í Reykjanesbæ árið 2015, en hún lenti í fjórða sæti í opnum flokki kvenna á Íslandsmeistaramótinu í kraftlyftingum.