Nýjast á Local Suðurnes

HS Orka og knattspyrnudeild Grindavíkur framlengja samstarfssamning

HS Orka og Knattspyrnudeild Grindavíkur hafa undirritað framlengingu á samstarfssamningi sínum. Undirritunin fór fram í dag í Eldborg, höfuðstöðvum HS Orku í Svartsengi.

Við höfum átt langt og gott samstarf við knattspyrnudeild Grindavíkur og erum mjög ánægð með að halda því áfram. Við höfum lagt mikla áherslu á að styðja við gott starf hér á svæðinu og leggja okkar af mörkum þar sem við getum. Það hefur ekki verið leiðinlegt að fylgjast með frábærum árangri nýliða Grindavíkur í Pepsi deildinni nú í sumar, ekki síst þar sem tveir lykilleikmenn liðsins starfa hjá okkur. Við fáum þetta því allt beint í æð“ segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku.

Við erum mjög ánægð með að halda áfram góðu samstarfi við HS Orku. Öflugir styrktaraðilar eru gríðarlega mikilvægir í rekstri knattspyrnudeildar og gera okkur kleift að halda úti öflugu liði í bæjarfélaginu“ segir Eiríkur Leifsson framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildarinnar.

Grindavík hefur verið á miklu flugi í Pepsi deildinni nú í sumar og er í toppbaráttunni þegar deildin er hálfnuð. Þeir Gunnar Þorsteinsson og Matthías Örn Vilhjálmsson hafa verið öflugir í sumar en báðir starfa hjá HS Orku. Matthías, sem starfað hefur hjá fyrirtækinu í sjö ár sinnir starfi innkaupastjóra en hann útskrifaðist í sumar með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík . Gunnar Þorsteinsson sem er fyrirliði liðsins er sumarstarfsmaður hjá HS Orku og starfar við gagnavinnslu og sýnatöku. Hann stundar nám í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

 

Á meðfylgjandi mynd eru Gunnar Þorsteinsson, Jóhann Snorri Sigurbergsson, Eiríkur Leifsson og Matthías Örn Vilhjálmsson.