Nýjast á Local Suðurnes

Haukur Helgi og Bonneau áfram hjá Njarðvík

Haukur Helgi Pálsson hefur undirritað samning við KKD Njarðvíkur um að spila með liðinu á næsta keppnistímabili 2016/2017. Klásúla er í samningi sem tryggir Hauki að leita á erlend mið  ef svo ber undir að ákjósanlegt tilboð berist frá  erlendu félagi.

Gunnar Örlygsson formaður Kkd. Njarðvíkur er að vonum ánægður með þróun mála:

“Það er því ekki ofsögum sagt að stjórn KKD Njarðvíkur sé himinlifandi með samninginn við þennan frábæra leikmann.  Haukur Helgi var mjög góður sl. tímabil þó svo ýmislegt hafi gengið á. Haukur hafði t.a.m. aldrei áður spilað í efstu deild á Íslandi.

Ég hins vegar tel að Haukur muni vera enn betri fyrir Njarðvíkinga á næsta tímabili. Nú þekkir hann deildina betur og veit að hverju hann gengur.  Okkur er að takast að halda kjarnanum í liðinu áfram og vonandi tekst okkur að landa 1-2 góðum leikmönnum til viðbótar. Nú vantar okkur miðherjann í liðið en ljóst er að leikstjórnandinn Stefan Bonneau verður orðinn leikfær aftur í haust eða u.þ.b. sem alvaran hefst.

Ef lokataflið heppnast vel hjá okkur, þá verðum við með lið sem á erindi meðal þeirra allra bestu á Íslandi.” Sagði Gunnar