Nýjast á Local Suðurnes

Grindavíkurliðin hafa skorað mest allra í deildarkeppnum í sumar

Meistaraflokkslið Grindavíkur í kvenna- og karlaflokki hafa skorað mest allra liða í öllum deildum, ef utan er skilin fjórða deild karla. Liðin eru nokkuð samstíga í markaskoruninni, en karlaliðið hefur skorað 36 mörk í fjórtán leikjum það sem af er tímabilinu á meðan kvennaliðið hefur skorað 37 mörk í ellefu leikjum.

Alexander Veigar Þórarinsson er markahæstur karlaliðsins með 8 mörk, en þeir Juan Manuel Ortiz Jimenez og William Daniels hafa gert 5 mörk hvor. Hjá konunum hefur Marjani Hing-Glover skorað mest allra eða 10 mörk í 11 leikjum og Lauren Brennan hefur skorað sex mörk.

Grindavíkurstúlkur hafa einungis tapað einum leik á tímabilinu og eru efstar í B-riði 1. deildar kvenna, með 28 stig, á meðan Grindvíkingar eru í öðru sæti Inkasso-deildarinnar í karlaflokki, sömuleiðis með 28 stig en eftir 14 leiki, karlaliðið hefur einungis tapað tveimur leikjum í sumar.