Nýjast á Local Suðurnes

Grindavík í annað sætið eftir jafntefli gegn FH

Grindvíkingar halda áfram að koma skemmtilega á óvart í Pepsí-deild karla í knattspyrnu, en liðið gerði 1-1 jafntefli gegn FH á Grindavíkurvelli í kvöld. Liðið situr nú í öðru sæti deildarinnar með 14 stig eftir 7 umferðir.

FH-ingar voru sókndjarfari í upphafi leiks og áttu nokkur ágæt færi. Grindvíkingar komust hins vegar meira inn í leikinn þegar líða tók á fyrri hálfleikinn og áttu besta færi hálfleiksins á 35. mínútu þegar Alexander Þórarinsson átti gott skot úr þröngu færi.

Liðin skiptust á að sækja í upphafi síðari hálfleiks, en það voru Grindvíkingar sem voru fyrri til að skora, það gerði Andri Rúnar Bjarnason á 74. mínútu eftir flotta sendingu frá Milos Zeravica sem hafði unnið boltann af varnarmönnum gestanna. FH-ingar náðu að jafna leikinn um tveimur mínútum síðar með glæsilegu marki. FH ingar pressuðu stíft síðustu mínúturnar, en þétt vörn Grindvíkinga hélt og baráttustig í höfn.