Nýjast á Local Suðurnes

Frisbígolfvellir rísa í Reykjanesbæ

Frisbígolf eða folf, eins og það er kallað í daglegu tali, nýtur sífellt meiri vinsælda á meðal landsmanna og eru íbúar Suðurnesja engin undantekning þar á. Nú stendur til að setja upp aðstöðu til folfiðkunar á nokkrum stöðum í Reykjanesbæ, og hafa nú þegar verið settar upp tvær brautir á opna svæðinu við Bakkalág.

Þó ekki sé hægt að nota hvaða frisbídisk sem er í frisbígolfi er kostnaður fyrir byrjendur frekar lítill en diskur sem hentar fyrir þessa íþrótt kostar um 2.000 krónur. Til er ótrúlegt úrval ólíkra diska með mismunandi eiginleika en sérstakir diskar eru til fyrir löng, meðallöng og stutt köst, þannig að ráðlegt er að byrja með 3-4 diska.

Vinsælustu vellir landsins eru gríðarlega mikið sóttir en á bestu dögunum eru spilarar á hverjum teig og þúsundir að spila á hverjum degi, segir í tilkynningu frá Folfsambandi Íslands. Undanfarin ár hefur fjöldi frisbígolfvalla verið teknir í gagnið um allt land, meðal annars í Reykjavík, Hafnarfirði, á Flúðum og við Apavatn.

Áhugasamir folfarar á Suðurnesjum hafa þegar stofnað Facebook-hóp um áhugamálið og Nettó hefur sett byrjendapakka í sölu í verslunum sínum, því er ljóst að töluverður áhugi er á sportinu á svæðinu.