Nýjast á Local Suðurnes

Fátt um fína drætti þegar Keflavík tapaði fyrir Stjörnunni

Keflvíkingum tókst ekki að snúa gæfunni sér í vil í Pepsí-deildinni í knattspyrnu þegar liðið mætti Íslandsmeisturum Stjörnunnar úr Garðabæ, liðið situr enn á botni deildarinnar eftir 1-2 tap á Nettóvellinum í kvöld.

Stjörnumenn komust yfir á 24. mínútu með marki frá Jeppe Hansen. Það var svo Sigurbergur Elísson sem skoraði mark Keflvíkinga á 36. mínútu eftir hornspyrnu og jafnaði leikinn en tíu mínútum síðar skoruðu Stjörnumenn sigurmark leiksins og var þar að verki Arnar Már Björgvinsson.

Leikurinn var lítið fyrir augað og lítil ógn var í sóknarleik Keflvíkinga í kvöld eins og svo oft áður í sumar. Liðið situr eins og áður sagði eitt á botni deildarinnar og hefur aðeins skorað 10 mörk en fengið á sig 23 þegar tímabilið er að verða hálfnað.