Nýjast á Local Suðurnes

Endurvekja körfuboltann í Garði

Aðalfundur Körfuknattleiksdeildar Víðis var haldinn á dögunum, en deildin hefur nýlega hafið starfsemi á ný eftir um 20 ára hlé. Hilmar Þór Ævarsson, Ragnar Þór Baldursson og Eiríkur Arnar Björgvinsson voru kosnir í stjórn deildarinnar.

Deildin heldur einungis úti meistaraflokki um þessar mundir sem tekur þátt í utandeildinni í körfuknattleik, en Hilmar Þór, formaður deildarinnar segir vel mögulegt að liðið muni reyna sig í mótum á vegum KKÍ þegar fram líða stundir. Þá segir Hilmar að möguleiki sé á að setja upp barnastarf á vegum deildarinnar

“Eins og staðan er núna höldum við bara úti meistarflokki og keppum í utandeild á vegum Breiðabliks, en við höfum fundið fyrir áhuga í sveitarfélaginu á að halda úti barnastarfi í einhverri mynd og kannski reyna við alvöru deildarkeppni,” Sagði Hilmar Þór léttur í bragði.

Áhugasömum aðilum, 16 ára og eldri stendur til boða að prufa að æfa með félaginu og eru æfingar á þriðjudögum klukkan 18:30 og fimmtudögum klukkan 19:30.

Þá heldur deildin úti Fésbókar-síðu og er um að gera að skella “like-i” á hana og fylgjast með því sem er að gerast hverju sinni.