Nýjast á Local Suðurnes

Elvar Már tók málin í sínar hendur – Barry í átta liða úrslit í annað sinn í sögunni

Elvar Már Friðriksson

Lið Barry í bandaríska háskólaboltanum tryggði sér sæti í átta liða úrslitum NCAA keppninnar í nótt, með sigri á sterku liði Eckerd háskóla, 79-72. Þetta er í annað sinn í sögu skólans sem liðið nær að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum.

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson átti enn einn stórleikinn með liði Barry, en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði 29 stig í leiknum. Barry var níu stigum undir þegar þrettán mínútur lifðu leiks en þá tók Elvar már til sinna ráða og skoraði 14 stig í röð, þar af 12 með skotum fyrir utan þriggja stiga línuna.

“Á tímabili hélt ég að þetta yrði minn síðasti leikur með liðinu, en það kom aldrei til greina að falla úr leik svona,” sagði Elvar á blaðamannafundi eftir leikinn.