Nýjast á Local Suðurnes

Ekki frágengið með komu Jeremy Atkinson til Njarðvíkur

Njarðvíkingar hafa borið víurnar í Bandaríska körfuknattleiksmanninn Jeremy Atkinson, en hann á að fylla skarð Corbin Jacskon sem sagt var upp hjá liðinu á dögunum. Atkinson þekkir vel til í herbúðum Njarðvíkinga en hann lék sem kunnugt er með liðinu á síðari hluta síðasta tímabils.

Málið er þó ekki alveg frágengið að sögn Gunnars Örlygssonar formanns Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, verið er að vinna í pappírsmálum sem snúa að félagaskiptum kappans, auk leyfismála. Gunnar sagðist í samtali við Suðurnes.net ekki geta staðfest komu Atkinson til liðsins, enda væri hann enn minnugur vandræðana sem upp komu þegar Michael Craig, eða Moby Dick eins og hann var jafnan kallaður, gekk til liðs við Njarðvíkinga á sínum tíma, en erfiðlega gekk að klára leyfismál fyrir hann hér á landi.

Atkinson lék með Stjörnunni áður en hann gekk til liðs við Njarðvíkinga á síðasta tímabili og skoraði 19,6 stig að meðaltali í leik, tók 10 fráköst og gaf 3,3 stoðsendingar þegar hann lék hér á landi.