Nýjast á Local Suðurnes

Einar Árni verður áfram í Þorlákshöfn – “Vona að uppeldisfélaginu gangi vel”

Einar Árni Jóhannsson lengst til hægri á myndinni á EM í Austurríki

Einar Árni Jóhannsson og lærisveinar hans í Þór frá Þorlákshöfn eru komnir í frí frá körfubolta næstu misserin eftir að hafa tapað gegn Haukum í æsispennandi leik í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í gær.

Þórsarar voru sterkari aðilinn nær allan leikinn, sem fór í framlengingu og lauk með sigri Hauka, 96-100. Þó að Einar Árni hafi verið svekktur með úrslitin er hann stoltur af sínu liði.

“þetta svekkj­andi því við vor­um tvisvar með augna­blik í venju­leg­um leiktíma þar sem við vor­um bún­ir að setja lyk­il­inn í og átt­um bara eft­ir að skella í lás en vor­um klauf­ar.” Sagði Einar Árni.

“Stoltur af mínu liði og hlakka til framhaldsins. Margar frábærar minningar og við tökum þær með okkur inn í sumarið, sem er mikilvægur tími. Mínir menn hafa öðlast mikla reynslu í vetur, spilað tvo bikarúrslitaleiki og farið í hörku seríu gegn frábæru Haukaliði. Veturinn var gott skref í fjárfestingu framtíðar Þórs!” Segir Einar Árni

Þrátt fyrir að vera á sínu fyrsta ári sem þjálfari Þórsara er Einar Árni reyndur þjálfari og hefur meðal annars stjórnað Njarðvíkingum sjö sinnum í úrslitakeppni. Árangur Einars með Þór verður að teljast góður, en auk þess að komast í 8-liða úrslitin lék liðið til úrslita í Powerade-bikarnum, þar sem það tapaði gegn KR-ingum.

Einar Árni á enn tvö ár eftir af samningi sínum við Þór og sagðist í samtali við Local Suðurnes ætla að stjórna liðinu út samningstímann. Þrátt fyrir að vera kominn í frí mun Einar Árni fylgjast vel með úrslitakeppninni, þar sem hann vonast eftir áframhaldandi skemmtun og hann vonar að uppeldisfélaginu Njarðvík vegni vel.

“Ég á tvö ár eftir af mínum samning og verð áfram. Að sjálfsögðu vona eg að uppeldisfelaginu gangi vel enda margir þar sem ég hef unnið með á síðustu árum. Umfram allt vonast eg bara eftir áframhaldandi skemmtun í úrslitakeppninni.” Sagði Einar Árni í léttu spjalli við Local Suðurnes.