Nýjast á Local Suðurnes

Breyta vinnureglum – Íþróttamenn á leið á stórmót geta sótt um styrki vegna æfingaferða

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt breytingar á vinnureglum varðandi styrkveitingar til afreksíþróttafólks á þann veg að nú geta þeir íþróttamenn sem unnið hafa þátttökurétt á heimsmeistaramót, Ólympíuleika, Norðurlandamót eða Evrópumót sótt um styrki vegna æfingaferða.

Töluverðar umræður sköpuðust á dögunum um málefni þriggja afraksíþróttamanna sem í sundi sem sóttu um styrki vegna undirbúnings fyrir Evrópu- og Ólympíumót og fengu höfnun þar sem æfingaferðir féllu ekki undir reglur sjóðsins.

Breytingarnar felast í því að nú getur afreksíþróttafólk sótt um styrki til æfinga fyrir fyrrnefnd mót einu sinni á ári.

Þá voru einnig samþykktar breytingar á styrkjum til þjálfara á vegum Reykjanesbæjar og mun Íþrótta- og afrekssjóður nú veita styrki til íþróttaþjálfara sem stunda þjálfun hjá íþróttafélögum í sveitarfélaginu til að sækja námskeið innanlands á vegum sérsambanda að upphæð 15.000 kr. að hámarki og til að sækja alþjóðanámskeið eða kynna sér þjálfun erlendis að upphæð 40.000 kr.