Nýjast á Local Suðurnes

Bonneau mögulega áfram hjá Njarðvíkingum þrátt fyrir meiðsli

Hinn bandaríski leikstjórnandi Njarðvíkinga Stefan Bonneau mun mögulega vera áfram í herbúðum liðsins þrátt fyrir að verða frá vegna meiðsla næstu 6-9 mánuðina. Bonneau er eins og kunnugt er einn allra öflugasti leikmaður sem leikið hefur hér á landi og átti stóran þátt í góðum árangri Njarðvíkinga á síðustu leiktíð.

Njarðvíkingar sömdu á dögunum við annan leikmann frá Bandaríkjunum, Marquise Simmons, um að leika með liðinu í vetur. Simmons er 203 cm á hæð og leikur stöðu miðherja og því er nokkuð ljóst að Njarðvíkingar munu gera einhverjar taktískar breytingar á leik sínum.

simmons njardvik

Njarðvíkingar sömdu við Simmons á dögunum, það er því líklegt að tveir Bandaríkjamenn verði á launaskrá liðsins í vetur

Á sama tíma og tilkynnt var um eftirmann Bonneau kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 að Bonneau yrði líklega áfram í herbúðum liðsins og myndi vinna að sérverkefnum fyrir félagið.

Gunnar Örlygsson formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur vildi ekki staðfesta þetta í samtali við Local Suðurnes né vildi hann tjá sig um hvers eðlis sérverkefnin yrðu sem Bonneau myndi vinna fyrir félagið, ef af yrði.

Að Loga Gunnarsyni undanskyldum eru bakverðir Njarðvíkinga ungir að aldri, sá yngsti 17 ára og sá elsti 22 ára og koma þeir allir upp úr öflugu yngriflokka starfi deildarinnar, því má leiða líkum að því að sérverkefni Bonneau, ef af verður, muni tengjast þjálfun eða ráðgjöf í sambandi við bakavarðamál liðsins.