Nýjast á Local Suðurnes

Björn Lúkas keppir á HM áhugamanna í MMA

Grindvíkingurinn Björn Lúkas Haraldsson mun keppa fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA sem fram fer dagana 12. til 19. nóvember, en 258 keppendur eru skráðir til leiks á mótið.

Mótið fer fram í Barein og með Birni Lúkasi í för verður Hrólfur Ólafsson sem hornamaður.

Björn Lúkas (2-0) hefur byrjað MMA ferilinn afar vel. Hann hefur tekið tvo bardaga á þessu ári og klárað þá báða í fyrstu lotu. Báðir bardagar hans hafa farið fram í veltivigt en Björn Lúkas mun keppa í millivigt á mótinu. Vigtað er á keppnisdegi og á Björn von á því að keppa fimm bardaga á jafn mörgum dögum fari svo að hann komist alla leið í úrslit.

International MMA Federation (IMMAF) stendur fyrir mótinu en þetta er í fjórða sinn sem heimsmeistaramótið er haldið. Bjarni Kristjánsson keppti á HM í fyrra með góðum árangri en Ísland átti einnig fjölmarga keppendur á EM 2016 og 2015. Bjarki Þór Pálsson og Sunna Rannveig Davíðsdóttur urðu Evrópumeistarar 2015 og Egill Hjördísarson 2016.