Nýjast á Local Suðurnes

Arnar Helgi með sex Íslandsmet á fjórum dögum – “Á helling inni fyrir EM!”

Arnar Helgi Lárusson er eini hjólastólakappakstursmaður landsins og hefur verið iðinn við kolann frá árinu 2012, en sumarið 2014 vann hann til bronsverðlauna í 200m keppni á Evrópumeistaramótinu í Swansea. Það eru einu verðlaun Arnars á stórmóti og þykir gríðarlegur árangur í ljósi stutts ferils Arnars í íþróttinni.

Arnar Helgi undirbýr sig nú af krafti fyrir Evrópumeistaramót fatlaðra í frjálsum íþróttum sem fram fer í Grosseto á Ítalíu dagana 10.-16. júní næstkomandi og er óhætt að segja að kappinn sé í fantaformi, en hann hefur sett sex Íslandsmet á undanförnum dögum.

Samkvæmt Facebook-síðu Arnars Helga er allt að smella saman og hann á nóg inni fyrir Evrópumeistaramótið, hann hefur “rúllað” um 1.000 kílómetra á undanförnum dögum auk þess að hafa tekið þátt í keppni þar sem um 450 þátttakendur voru skráðir til leiks.

Eftir að hafa æft eins og brjálæðingur síðustu 3 vikur og rúllað ca 1000 km sem endaði svo með 4 daga keppni, þar sem voru u.þ.b 450 hjólastóla keppendur og þar af 90 keppendur í minum flokki í hinum ýmsu vegalengum þá eru þetta niðurstöðurnar;

100m 17,19 sek (21.sæti)
200m 31:50 sek (9.sæti)
400m 64:25 sek (28.sæti)
800m 2:13,24 (29.sæti)
5000m 14:57,24 (29.sæti)

Það er svo margt að smella saman hjá mér núna og ég veit að ég á sjálfsagt að vera mjög sáttur en ég veit að ég á helling inni! Segir á Facebook-síðu Arnars Helga