Nýjast á Local Suðurnes

Arnar Helgi keppir á EM á Ítalíu – Vann bronsið á síðasta móti

Evrópumeistaramót fatlaðra í frjálsum íþróttum fer fram í Grosseto á Ítalíu dagana 10.-16. júní næstkomandi. Ísland sendir fjóra keppendur á mótið og er Arnar Helgi Lárusson þeirra á meðal en hann keppir í hjólastólakappakstri.

Arnar Helgi er eini hjólastólakappakstursmaður landsins og hefur verið iðinn við kolann frá árinu 2012 en sumarið 2014 vann hann til bronsverðlauna í 200m keppni á Evrópumeistaramótinu í Swansea. Það eru einu verðlaun Arnars á stórmóti og þykir gríðarlegur árangur í ljósi stutts ferils Arnars í íþróttinni.

EM í Grosseto verður síðasta stórmótið sem íslensku keppendunum stendur til boða áður en haldið verður til Río de Janeiro í Brasilíu í septembermánuði þessa árs þar sem Paralympics fara fram. Senn styttist í að Ríó hópurinn verði kynntur til leiks og verður fróðlegt að sjá hvort Arnar Helgi verði á meðal fulltrúa Íslands í Ríó þegar Paralympics munu fara þar fram í fyrsta sinn í sögunni.