Nýjast á Local Suðurnes

Andra Steini sagt upp – “Kæmi það ekki á óvart að einhverjir leikmenn líti í kringum sig”

Andra Steini Birgissyni hefur verið sagt upp störfum sem þjálfara Þróttar  Vogum, en liðið er í sjöunda sæti þriðju deildarinnar í knattspyrnu. Andri, sem kom Þrótti upp úr 4. deild í fyrra, er ósáttur við ákvörðun stjórnarinnar, en stjórnaði liðinu þó gegn Víði í 0-3 tapi, degi eftir að hafa fengið uppsagnarbréfið í hendur.

Andri telur sig hafa haft fullan stuðning innan leikmannhópsins, enda stjórnaði hann liðinu í leiknum gegn Víði vegna þrýstings frá leikmönnum. Hann sagði í samtali við Fótbolti.net að hann ætti von á að leikmenn færu að líta í kringum sig þegar félagaskiptaglugginn opnar á ný.

“Eftir að leikmenn hvöttu mig til að heyra í stjórninni og taka leikinn á móti Víði þá lét ég undan og heyrði í þeim og við féllumst á þá ákvörðun að ég tæki þann leik svo það væri allavega eitthvað vit í þeim leik. Enga að síður voru þeir búnir að skemma hann með þessu rugli og var engin leið að undirbúa liðið enda var klukkutími í mætingu þegar þessi ákvörðun er tekin.”

Andri telur sig hafa haft fullan stuðning innan leikmannhópsins. „Já ég tel það. Miðað við viðbrögð leikmanna og stuðning sem ég fæ kæmi það ekki á óvart að einhverjir leikmenn líti í kringum sig í glugganum.”

„Annars þakka ég knattspyrnudeild Þróttar fyrir minn tíma og óska þeim góðs gengis. Ég er strákunum mjög þakkláttur fyrir þeira stuðning og þeirra framlag á æfingum og á vellinum,” sagði Andri.