Nýjast á Local Suðurnes

Allur aðgangseyrir á grannaslag rennur í Minningarsjóð Ölla

Fimmtudaginn 16. janúar mætast nágrannarnir Njarðvík og Keflavík í grannaglímu í Domino´s-deild karla í körfuknattleik. Leikurinn fer fram í Njarðtaksgryfjunni og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Allur aðgangseyrir á leikinn mun renna óskiptur í Minningarsjóð Ölla en þann 16. janúar verða 20 ár liðin frá því að Örlygur Aron Sturluson lést af slysförum. Minningarsjóður Ölla styrkir börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna.

Stöð 2 Sport mun tjalda öllu til þennan daginn því klukkan 18.10 verður sýnd viðureign Njarðvíkur og Keflavíkur frá árinu 1999 og klukkan 19.40 verður Domino´s Körfuboltakvöld með „Í minningu Ölla“ í beinni frá Njarðtaksgryfjunni. Grannaslagurinn sjálfur hefst svo klukkan 20.15. Að leik loknum eða klukkan 22.15 mun Stöð 2 Sport svo sýna heimildarmyndina „Ölli“ eftir Garðar Örn Arnarson.