Nýjast á Local Suðurnes

Æfðu sitt hvorum megin á landinu og sameinuðust á Rey Cup – Æfðu með hjálp SnapChat

Sameinað lið Njarðvíkur og KF í stúlknaflokki vakti athygli á knattspyrnumóti Rey Cup sem fram fór um helgina í Laugardal. Um 450 kílómetrar skilja liðin að en lið KF er staðsett í Fjallabyggð sem er sveitarfélag nyrst á Tröllaskaganum. Fréttablaðið fjallar um þessa áhugaverðu sameiningu, en báðir flokkar eru fámennir og því var ákveðið að sameinast um þátttöku á mótinu.

Með hjálp samfélagsmiðla eins og SnapChat náðu stelpurnar og foreldrarnir að kynnast aðeins í aðdraganda mótsins enda var engin önnur leið til að kynnast. Liðin æfðu sitt hvorum megin á landinu og mættu svo til Reykjavíkur þar sem hópurinn gisti saman í skólastofu líkt og önnur lið.

Liðið stóð sig vel á mótinu þrátt fyrir fjarlægðina á milli sveitarfélaganna tveggja, en stúlkurnar unnu tvo leiki, gerðu tvö jafntefli og töpuðu þremur leikjum.

Stúlkurnar spiluðu í bláu KF-búningunum en voru með Njarðvíkurbuff annaðhvort á hendinni eða hausnum til að fá hinn græna lit Njarðvíkur. Liðin munu hittast aftur í ágúst, en þá sem mótherjar, þegar það verður sjö manna mót haldið á Ólafsfirði.