Nýjast á Local Suðurnes

Vestnorræna ráðið býður íbúum Suðurnesja á menningarkvöld á föstudaginn

Frá Grænlandi

Vestnorræna ráðið heldur árlega þemaráðstefnu sína í Gjánni í Grindavík 28.-31. janúar en Vestnorræna ráðið er samstarfsráð þinga og ríkisstjórna Færeyja, Grænlands og Íslands sem var stofnað árið 1985 og hélt það upp á 30 ára afmæli sitt á síðasta ári. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni er lýðræði á Norðurslóðum og aðkoma lýðræðislega kjörinna fulltrúa að málefnum Norðurslóða.

Vestnorræna ráðið býður íbúum Grindavíkur og nágrennis á menningarkvöld föstudaginn 29. janúar kl. 20:00 til 22:00 í Gjánni, í Íþróttamiðstöðinni i Grindavík.

Þar getur þú kynnst næstu nágrönnum okkar í austri og vestri, Færeyingum og Grænlendingum. Haldnar verða kynningar á löndunum sem áfangastaðir ferðamanna, sýndur þjóðbúningur Grænlendinga, grænlensku söngvarnir Kiiu og Paaliit syngja nokkur lög og svo verður eins og alltaf þegar vestnorrænt fólk hittist, sungið saman á færeysku, grænlensku og íslensku. Síðast og ekki síst getur þú smakkað hvalhúð af náhval og frostþurrkaðri grálúðu frá Grænlandi, spik af grindhval, þurrkað grindhvalskjöt og skerpukjöt frá Færeyjum, á meðan birgðir endast. Og auðvitað verður íslenskur harðfiskur líka.

Kaffi, te og smákökur verða líka í boði.