Nýjast á Local Suðurnes

Sjóaranum síkáta aflýst í ár

Sjóaranum síkáta, sjómanna- og fjölskylduhátíð Grindvíkinga, hefur verið aflýst í ár vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu þar sem segir að hátíðin átti að fara fram í 25. sinn um sjómannadagshelgina og hafi undirbúningur staðið síðustu mánuði.

Einn megintilgangur hátíðarinnar er að stuðla að samveru Grindvíkinga og gesta. Erfitt er að hugsa sér að Sjóarinn síkáti fari fram með öðrum hætti en að fólk komi saman og skemmti sér. Í kjölfar víðtæks samráðs við helstu hagsmunaaðila hátíðarinnar hefur verið ákveðið að Sjóarinn síkáti fari ekki fram í ár í ljósi aðstæðna í samfélaginu.

Þó svo ekki fari fram hátíðardagskrá með hefðbundnum hætti munu aðstandendur Sjóarans síkáta leitast við að brjóta upp hversdagsleikann síðar á árinu. Grindvíkingar eru þekktir fyrir að sýna samstöðu þegar á reynir og munu saman sigla í gegnum það ástand sem nú ríkir.

Sjáumst á Sjóaranum síkáta 2021! Segir í tilkynningunni.