Nýjast á Local Suðurnes

Safnahelgi haldin í ellefta sinn

Safnahelgi á Suðurnesjum var sett í dag, en hún er nú haldin í ellefta sinn um helgina 9.-10. mars. Þar opna söfn í Grindavík, Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum dyr safna sinna fyrir gestum og gangandi. Í fyrra sótti metfjöldi söfnin á svæðinu og var vel látið af fjölbreyttum sýningum og viðburðum.

Á meðal þess sem boðið er upp á í ár er glæsilegur nýr gagnvirkur plötuspilari í Rokksafni Íslands, íbúar í Suðurnesjabæ og Vogum opna söfnin sín, stærsti slökkvibíll í heimi finnst í safnageymslum Reykjanesbæjar þar sem slökkvisafn Íslands er einnig til húsa og í Grindavík verður hægt að skoða muni sem tengast ströndum á svæðinu. Auk þess verður nóg um að vera fyrir börnin, m.a. upplestur úr Veröld Vættanna bæði í Grindavík og Reykjanesbæ, ævintýraveröld í Þekkingarsetrinu og föndursmiðja og ratleikur í Duus-húsum. Tilvalið er fyrir fjölskylduna alla að taka rúnt um Suðurnesin og skoða menningu og mannlíf í bakgarði höfuðborgarinnar.

Safnahelgi á Suðurnesjum er sameiginlegt verkefni allra safna, sýninga og setra á Suðurnesjum sem liður í því að kynna menningu á heilu landssvæði fyrir landsmönnum öllum og hefur það tekist vel með aukinni aðsókn árlega auk þess sem Safnahelgi hefur fest sig í sessi í svo langan tíma eins og raun ber vitni. Dagskrá helgarinnar er aðgengileg á vefsíðunni safnahelgi.is.