Nýjast á Local Suðurnes

Nokkuð um ölvun á Ljósanótt – Björguðu lífi manns sem ætlaði að synda til Hafnarfjarðar

Ljósanótt 2019 / Mynd: Reykjanesbær

Nokkuð var um ölvun á hátíðarsvæði Ljósanætur og við skemmtistaði bæjarins í gærkvöldi og nótt og enn og aftur sannaðist mikilvægi öflugrar gæslu lögreglunnar sem kom fólki fljótt og örugglega til aðstoðar. Þetta kemur fram á vef Reykjanesbæjar.

Þar er einnig greint frá því að Barnavernd Reykjanesbæjar hafi opnað athvarf við lögreglustöðina til að sinna börnum undir lögaldri. Þá þurfti að gera hlé á flugeldasýningu í tvígang þar sem bátar sigldu innan öryggissvæðis og ölvaður maður stakk sér til sunds í smábátahöfn, en samkvæmt fréttum var ætlun hans var að synda til Hafnarfjarðar. Björgunarsveitarmaður sem kom manninum til hjálpar slasaðist þegar sá ölvaði réðst að honum og var fluttur á slysadeild. Þá var nokkru magni af áfengi hellt niður af lögreglu þar sem viðkomandi aðilar höfðu ekkni náð aldri til að stunda drykkju þess.

Í dag er síðasti dagur hátíðarinnar en enn hægt að njóta fjölbreyttra viðburða. Golfarar tóku daginn snemma á opna Ljósanæturmótinu í golfi og pílukastarar verða að fram eftir kvöldi. Sýningar og söfn eru opnar fram eftir degi. Tvær sýningar á „Manstu eftir Eydísi?“ verða í Stapa kl. 16 og 20, óperusöngkonan Alexandra Chernyshova heldur stofutónleika kl. 16, sannar lygasögur verða sagar af Vellinum á varnarliðssýningu í Gryfjunni Duus Safnahúsum milli 16 og 18 og Bubbi Morthens verður í kvöldmessu í Keflavíkurkirkju sem hefst kl. 20.