Nýjast á Local Suðurnes

Miðasala hafin á Söngvaskáld 2017 – Síðast komust færri að en vildu

Miðasala er hafin á Söngvaskáld 2017, en að þessu sinni verður fjallað um söngvaskáldin Ingibjörgu Þorbergs, Þorstein Eggertsson og Magnús Þór Sigmundsson. Tónleikarnir fara fram þann 2. febrúar, 2. mars og 6. apríl.

Tónleikarnir verða haldnir í Bergi í Hljómahöll þar sem kynnt verður sagan á bak við tónlistina í heimilislegri stemningu. Kynnir og handritshöfundur er Dagný Gísladóttir, söngvari er Elmar Þór Hauksson og útsetningar og píanóleikur er í höndum Arnórs B. Vilbergssonar sem nýverið hlaut Menningarverðlaun Reykjanesbæjar.

Ingibjörg Þorbergsdóttir 2. febrúar 2017

Ingibjörg Þorbergs er án nokkurs vafa eitt af stóru nöfnunum í íslenskri tónlistarsögu. Hún varð snemma þekkt söngkona og að auki kunn fyrir lög og ljóð barnalaga og jólalaga sem hafa lifað fram á þennan dag. Má þar nefna Hin fyrstu jól, jólaköttinn og Aravísur. Ingibjörg var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka einleikaraprófi á blásturshljóðfæri og frumkvöðull í plötuútgáfu en hefur varðað leið kvenna í íslenskri tónlist með framlagi sínu. Ingibjörg nær þeim áfanga að verða níræð á árinu og því við hæfi að kynna þetta fjölhæfa söngvaskáld.

Þorsteinn Eggertsson 2. mars 2017

Þeir eru ófáir lagatextarnir sem Þorsteinn Eggertsson hefur samið, og eins og sagt er í laginu: ef þú vilt fá skammt af ánægju og gleði og hamingjuvon, þá ættir þú að hlusta á texta eftir hann Þorstein Eggertsson. Þorsteinn var um tíma söngvari hjá KK sextettinum og söng með Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar í Keflavík og beatniks áður en hann sneri sér að textagerð. Eftir Þorstein liggur mikið magn dægurlagatexta en rúmlega fjögur hundruð þeirra hafa verið gefnir út í flutningi ýmissa tónlistarmanna og má þar nefna Fjólublátt ljós við barinn, Rabbarbara Rúna og Er ég kem heim í Búðardal.

Magnús Þór Sigmundsson 6. apríl 2017

Magnús Þór Sigmundsson er kunnastur fyrir samstarf sitt með öðru söngvaskáldi af Suðurnesjum, Jóhanni Helgasyni, en saman störfuðu þeir sem Magnús & Jóhann, Pal brothers og í hljómsveitinni Change. Seinna skildu leiðir og hefur magnús Þór gefið út fjöldann allan af sólóplötum meðal annars ætlaðar börnum. Mörg laga Magnúsar Þórs hafa notið vinsælda og má þar nefna blue Jean Queen, Ást, Alfar, Jörðin sem ég ann og Ísland er land þitt sem stundum er kallað hinn þjóðsöngur Íslands.

Á síðasta ári var uppselt á alla tónleika. Fyrstu tónleikarnir hefjast 2. febrúar og verða þeir haldnir í Hljómahöll.

Hægt er að nálgast miða á tónleikana hér.