Nýjast á Local Suðurnes

Menningarvika Grindavíkur hefst á laugardag – Fjölbreytt dagskrá

Menningarvika Grindavíkur er nú haldin í níunda sinn og að vanda er dagskráin fjölbreytt. Formleg setning hátíðarinnar verður í Grindavíkurkirkju laugardaginn 11. mars kl. 17:00. Að þessu sinni er áhersla lögð orðið SAGA hvort sem við tengjum það mannkynssögu, sögu einstaklinga, skáldsögu eða jafnvel sögu Grindavíkur.

Handverksmarkaður verður í Gjánni, fyrirlestrar haldnir í Kvennó, Þruman rekur útvarpsstöð, Sævar Helgi skoðar himingeiminn með Grindvíkingum, Sprengju-Kata heimsækir nemendur unglingastigs, tónleikar verða auk þess sem hægt verður að sækja slökun og líkamsrækt. Tvær leiksýningar eru í boði fyrir börn og foreldra, önnur er brúðuleiksýningin Íslenski fíllinn sem sýndur verður í Hópsskóla og í Kvennó mætir Kólumbus á ferð sinni um Norðurhöf.

Sem fyrr er uppstaðan í Menningarvikunni framlag heimamanna auk þess sem fjöldi landsþekktra listamanna og skemmtikrafta sækja Grindvíkinga heim. Undanfarin ár hefur Menningarvikunni verið vel tekið og Grindvíkingar duglegir að taka þátt og njóta þess fjölbreytta úrvals viðburða sem í boði er.

DAGSKRÁ MENNINGARVIKU 2017