Nýjast á Local Suðurnes

Löngu uppselt á þorrablót íþróttafélaganna – Svona gætirðu nælt í miða!

Þorrablót íþróttafélaganna Keflavíkur og Njarðvíkur eru án efa í flokki vinsælustu viðburða hvers árs á Suðurnesjum en miðar á blótin þetta árið seldust upp á örfáum klukkustundum líkt og undanfarin ár.

Skemmtiatriðin í ár eru ekki af verri endanum frekar en áður, en Keflvíkingar sem blóta þorra þann 18. janúar næstkomandi bjóða upp á tónlist frá Mugison, Ingó Veðurguð og Stuðbandinu auk þess sem skellt verður í Tinu Turner Powershow. Maturinn verður frá Réttinum og annállinn vinsæli verður að sjálfsögðu á sínum stað. Allt þetta verður undir öruggri stjórn þeirra félaga Audda Blö og Steinda Jr.

Njarðvíkingar taka svo slaginn þann 1. febrúar og þar verður heldur ekkert til sparað, en Magni og hljómsveitin Á móti sól munu halda uppi stanslausu stuði ásamt því sem hinn síungi Doddi litli mun láta til sína taka. Veislustjórn er í höndum ekki ómerkari manns en Hlyns Ben. Njarðvíkingar hafa jafnan gert vinsælan annál sem verður án efa á sínum stað.

Þrátt fyrir að löngu sé uppselt á bæði blótin hafa áhugasamir haft tök á að útvega sér miða en það kemur fyrir að fólk sem forfallast auglýsi miða til sölu á síðum félaganna á fésbókinni. Það er því um að gera að láta sér líka við síður þeirra; hér er pláss Njarðvíkinga á Facebook og hér má láta sér líka við Keflvíkinga.