Nýjast á Local Suðurnes

Landslið tónlistarmanna tekur þátt í Trúnó – Mugison lofar geggjuðum tónleikum

Hljómahöll tilkynnti nýverið nýja tónleikaröð sem fer fram í vetur sem ber heitið Trúnó. Tónleikarnir fara allir fram í Bergi sem er minnsti salur Hljómahallar með aðeins 100 sætum. Reggíhljómsveitin Amabadama var fyrsta hljómsveitin til að spila á tónleikaröðinni, en nú hefur full dagskrá tónleikaraðarinnar verið kynnt á vef Hljómahallar.

Eftirfarandi listamenn munu koma fram:

Hljómsveitin MOSES HIGHTOWER sendi á dögunum frá sér sína þriðju breiðskífu, Fjallaloft, og ætla þeir af því tilefni að koma fram á tónleikaröðinni. Nýja platan inniheldur 11 lög, en síðasta plata Moses Hightower, Önnur Mósebók, hlaut einróma lof gagnrýnenda og var m.a. valin plata ársins 2012 hjá Fréttablaðinu. Hljómsveitin hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin það árið fyrir lagasmíðar og textagerð, og 5 tilnefningar þar að auki. Moses Hightower mun flytja nýju plötuna á tónleikunum í bland við eldra efni. Moses Hightower kemur fram í Hljómahöll þann 5. Október.

EYÞÓR INGI er án efa einn af okkar fremstu söngvurum í dag og hefur farið sigurför um landið, einn síns liðs, með píanóið, gítarinn og röddina að vopni. Þessi ungi tónlistarmaður er jafnvígur á lagasmíðar, söng og eftirhermur og áhorfendur geta búist við hverju sem er frá Dalvíkingnum dagfarsprúða. Eyþór Ingi verður á trúnó í Hljómahöll þann 19. október.

MUGISON spilaði síðast í Hljómahöll í desember síðastliðinn, en um er að ræða einu eftirminnilegustu tónleika sem fram hafa farið í Hljómahöll. Nú snýr hann aftur vopnaður gítarnum ásamt trommara. Hann hefur lofað geggjuðum tónleikum þar sem fallegu lögin verða enn fallegri og grófu lögin negld niður eins og það sé stormur í aðsigi. Geggjuð tónlist flutt af ástríðu og einlægni sem Mugison er þekktur fyrir. Mugison dettur á trúnó þann 21. október.

Hljómsveitin MAUS fagnar um þessar mundir 20 ára afmæli plötunnar Lof mér að falla að þínu eyra. Fyrir stuttu var tilkynnt að sveitin hyggðist koma aftur saman á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves til að fagna afmæli plötunnar. Nú er það staðfest að hljómsveitin mun einnig koma fram í Hljómahöll. Platan Lof mér að falla að þínu eyra inniheldur smelli eins og Kristalnótt, 90 krónu Perla, Poppaldin, Égímeilaðig og Ungfrú Orðadrepir. Roger O’Donnell hljómborðsleikari The Cure spilaði í átta lögum á plötunni og söngkonan Lena Viderö á einnig gesta innkomu í einu lagi. Maus var stofnuð í Reykjavík árið 1993 og vann Músíktilraunir árið 1994. Sveitin varð gríðarvinsæl næstu ár á eftir bæði á tónleikum og útgáfu. Hljómsveitina skipa þeir Birgir Örn Steinarsson (söngur, gítar), Daníel Þorsteinsson (trommur), Eggert Gíslason (bassi) og Páll Ragnar Pálsson (gítar). Árið 1998 var Maus valin Hljómsveit Ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Þetta er einstakt tækifæri sem enginn sannur Maus-aðdáandi ætti að láta framhjá sér fara! Maus verða á trúnó þann 16. nóvember.

Miðasala á alla tónleikana í TRÚNÓ-tónleikaröðinni hefst kl. 13:00 föstudaginn 15. september á hljomaholl.is. Aðeins 100 miðar eru til sölu á hverja tónleika. Á heimasíðu Hljómahallar er yfirlit yfir alla þá tónleika sem fram fara í Hljómahöll og þaðan má finna hlekki á miðasölusíðu viðburðanna.