Nýjast á Local Suðurnes

Keilir útskrifar rúmlega hundrað nemendur

Keilir – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 104 nemendur við hátíðlega athöfn í Andrews Theater á Ásbrú föstudaginn 15. janúar. Við athöfnina voru útskrifaðir nemendur Háskólabrúar úr stað- og fjarnámi, einka- og styrktarþjálfarar, atvinnuflugmannsnemendur og fyrstu flugvirkjanemar AST og Keilis.

Háskólabrú Keilis útskrifaði í allt 65 nemendur úr öllum deildum, þar af 62 fjarnámsnemendur. Soffía Waag Árnadóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp. Dúx var Ellen Brynja Harðardóttir með 9,19 í meðaleinkunn. Fékk hún bók frá Íslandsbanka og spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir námsárangur. Valgerður Kristinsdóttir nemandi á Háskólabrú fékk viðurkenningu frá HS orku fyrir framúrskarandi námsárangur af verk- og raunvísindadeild. Malvina Elísabet Momuntjuk flutti ræðu útskriftarnema.

Með útskriftinni hafa samtals 1.343 nemendur útskrifast úr Háskólabrú Keilis og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis.

Ellefu atvinnuflugmenn og 22 flugvirkjar útskrifuðust frá Flugakademíu Keilis. Snorri Snorrason, skólastjóri Flugakademíu Keilis og Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, afhentu prófskírteini. Gunnar Hjörtur Hagbarðsson fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í atvinnuflugmannsnámi með 9,18 í meðaleinkunn, og fékk hann gjafabréf frá WOWair og bók frá Icelandair. Í allt hafa 101 atvinnuflugmenn útskrifast frá Keili frá upphafi skólans og var hundraðasti nemandinn heiðraður við útskriftina. Féll sá heiður í skaut Sigurðar Arnar Sigurðssonar.

Þá útskrifaðist fyrsti hópur flugvirkjanema frá Keili, en boðið er upp á námið í samvinnu við AST (Air Service Training) í Skotlandi. John Dobney, forstöðumaður á Perth Campus, flutti ræðu fyrir hönd AST. Í ræðu sinni bar hann fyrir kveðju frá AST og ítrekaði ánægju skólans með samstarfið við Flugakademíu Keilis. Hann lýsti enn fremur yfir ánægju sína með útskriftarhópinn sem endurspeglaði gæði námsins og þá frábæru aðstöðu sem Keilir hafi byggt upp á Ásbrú.

Fyrsti flugvirkjaneminn til að útskrifast hjá Keili var Atli Þór Tryggvason og var honum færð bókagjöf með útskriftarskírteininu. Guðmundur Hallur Hallson fékk viðurkenningu fyrir námsárangur í flugvirkjanáminu með 8,84 í meðaleinkunn. Fékk hann bókagjafir frá ITS og Isavia.

Örvar Snær Birkisson flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis.

Sex nemendur útskrifuðust sem ÍAK þjálfarar úr Íþróttaakademíu Keilis, fjórir einkaþjálfarar og tveir styrktarþjálfarar. Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp. Þórunn Stella Hermannsdóttir fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur með 9,25 í meðaleinkunn, en hún flutti einnig ræðu útskriftarnema fyrir hönd ÍAK. Fékk hún gjafir frá Sportvörum, Adidas og Eins og fætur toga.

Með útskriftinni hafa samtalst 2.476 nemendur útskrifast frá Keili síðan skólinn hóf starfsemi árið 2007. Í ræðu sinni fjallaði Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, um gildi umræðunnar, umburðalyndis og tengsl þess við lýðræðið. Jafnframt vakti hann athygli á því hve illskan setur æ meira svip sinn á umræðuna í þjóðfélaginu, ekki síst í samfélagsmiðlum og það hvernig sú illska ógnaði grundvelli lýðræðis.