Nýjast á Local Suðurnes

Keflavíkurnætur um helgina: “Gaman að hrista aðeins upp í næturlífinu á Suðurnesjum”

Miðasala á tónlistahátíðina Keflavíkunætur er í fullum gangi, en hátíðin fer fram um helgina á helstu skemmtistöðum Reykjanesbæjar. Þetta er í fjórða sinn sem hátíðin er haldin og  hefur hún ávallt þótt takast vel, auk þess sem gestafjöldi hefur aukist töluvert á milli ára. Miðasala á hátíðina fer fram í forsölu í versluninni Gallery við Hafnargötu og á midi.is.

Að þessu sinni fer hátíðin fram á þremur skemmtistöðunum í miðbæ Reykjanesbæjar, Ránni, þar sem fram koma Björgvin Halldórsson, Magni, Jóhanna Guðrún og hljósveitin Von. Á skemmtistaðnum Center munu svo XXX Rottweiler Hundar, Aron Can, Herra Hnetumjör, KILO, Joey Christ og Birnir halda uppi fjörinu. Skemmtistaðurinn H-30 mun svo hýsa hina geysivinsælu hljómsveit Skítamóral.

“Móttökurnar undanfarin ár hafa verið frábærar og ég vona að Suðurnesjamenn verði í gírnum þetta árið líka. Það er alltaf gaman að hrista aðeins upp í næturlífinu á Suðurnesjum í samstarfi við helstu skemmtistaðina.” Sagði Óli Geir, sem að vanda sér um skipulagningu hátíðarinnar.

Þá er vert að benda á að allar nánari upplýsingar um dagskránna er að finna á facebook-síðunni „Keflavíkurnætur“ en þar eru leikir í gangi þar sem miðar á hátíðina eru í verðlaun. Að venju er gilda armbönd á alla viðburði hátíðarinnar.