Nýjast á Local Suðurnes

Jóhann og Tólfufélagar í beinni á BBC – Taka víkingaklappið fyrir 12.000 manns

Jóhann D Bianco og félagar úr Tólfunni, stuðningsmannafélagi Íslenska landsliðsins í knattspyrnu vöktu verðskuldaða athygli í kringum Evrópukeppnina sem fram fór í Frakklandi í sumar. Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur boðið þeim félögum að mæta á hina virtu verðlaunahátíð BBC Sports Personality Of The Year sem er haldin í Bretlandi ár hvert.

Tilgangurinn er sá að fá þá félaga til að stjórna hinu sívinsæla víkingaklappi með þeim 12.000 gestum sem sækja hátíðina. Á meðal gesta verða knattspyrnugoð eins og Gareth Bale, Jamie Vardy og þá mun Robbie Williams mæta á svæðið og hita upp fyrir þá Tólfufélaga, eins og Jóhann orðar það á Facebook síðu sinni.

“Núna næ ég loksins endanlega að loka þessu yndislega EM ævintýri með stæl, mikið er ég þakklátur fyrir það. Nú ætla ég bara að fara út og NJÓTA.” Segir Jóhann.

Þeir sem hafa áskrift að BBC geta fylgst með athöfninni sem fram fer á sunnudaginn kl. 18.40.