Nýjast á Local Suðurnes

Íþróttastjörnur heimsóttu Sandgerði

Norræna skólahlaupið var opnað í Grunnskólanum í Sandgerði í byrjun september. Að því tilefni komu fulltrúar ÍSÍ ásamt þeim Ara Braga Kárasyni íslandsmethafa í 100m spretthlaupi, Guðna Val Guðmundssyni kringlukastara og ólympíufara og lukkudýrinu Blossa sem fór á kostum og hélt uppi fjörinu.

Nemendur í eldri bekkjum fengu að taka spjall við íþróttamennina og heyra þeirra íþróttasögu. Eftir það var haldið af stað út á Reynisvöll þar sem hlaupið var Norræna skólahlaupið í mikilli blíðu. Það er óhætt að segja að góð stemming hafi ríkt í hlaupinu þar sem spiluð var tónlist og bein lýsing var á framgangi hlaupsins sem og hvatning til hlaupara  í hátalarakefinu á staðnum. Að hlaupi loknu fengu þátttakendum mjólk í boði MS. Þá skoruðu nokkir nemendur á Ara Braga í kapphlaup sem hann skoraðist ekki undan. Fulltrúar ÍSÍ færðu Gunnskólanum í Sandgerði bolta að gjöf.

Norræna skólahlaupið var nú haldið í 33. sinn og er markmið hlaupsins að hvetja nemendur til að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Á síðasta ári tóku rúmlega 15.000 grunnskólanemendur frá um 63 skólum á Íslandi þátt í hlaupinu og hlupu til samans um 40 hringi í kringum landið, en hægt er að velja um þrjár vegalengdir 2,5, 5 og 10 kílómetra.

itrottafolk2