Nýjast á Local Suðurnes

Greindist með krabbamein aðeins vikugömul – Söfnun í gangi

Aðeins vikugömul var Ólavía Margrét Óladóttir greind með krabbamein í öðru auganu. Í fyrradag kom í ljós að meinið finnst einnig í auganu sem talið var heilbrigt. Suðurnesjafólkið Guðlaug Erla Björgvinsdóttir og Óli Baldur Jakobsson foreldrar Ólavíu eru nú stödd úti í Svíþjóð þar sem dóttir þeirra mun gangast undir lyfja- og lasermeðferð.

„Hún byrjar í lyfjameðferð fyrramálið. Hún var að fá dós í sig til þess að setja lyfin í sig,“ sagði Guðlaug í stuttu spjalli við Local Suðurnes og hún segist ekki vita hvernig Ólavía muni bregðast við lyfjagjöfinni en að hún hafi verið hress hingað til.

 

Kvíðir fyrir að sjá barnið sitt missa hárið

Þegar Guðlaug var ársgömul greindist hún með sama mein og dóttir hennar glímir við núna og missti alveg sjón á öðru auganu og hefur ekki fullkomna sjón á hinu. Hún þekkir því vel til veikinda af þessu tagi og segist kvíðamikið fyrir  því að sjá dóttur sína missa hárið.

„Ég vil helst bara raka það af, ég vil ekki sjá hárið detta af henni. Hún er með svo mikið hár í hnakkanum. Svona eins og lítið skott. Ég er bara glöð að hún sé svona ung. Svo hún þurfi ekki að muna eftir þessu.“ Sagði Guðlaug.

Ólavía fer líka í lasermeðferð og þess vegna þarf hún að fara út til Svíþjóðar á þriggja vikna fresti í viku í senn. Hversu lengi Ólavía þarf að gangast undir þessa meðferð ræðst af því hvernig bati hennar gengur.

Söfnun hafin

Álagið er mikið á foreldrunum sem eru ung að árum, Guðlaug er aðeins 19 ára gömul og Óli Baldur er nýorðinn 23 ára. Til að létta af þeim fjárhagsáhyggjum hófu móðir hennar og frænka söfnun fyrir þau.

Reikningsnúmerið er 0142-05-073060 og kennitala Guðlaugar er 090396-3239.