Nýjast á Local Suðurnes

Flottir búningar og miklir hæfileikar á Öskudagur got talent

Fjölmargir búningaklæddir krakkar litu við í Fjörheimum á öskudag og tóku þátt í búningakeppni og hæfleikakeppni undir yfirskriftinni „Öskudagur got talent.“ Á þriðja tug atriða voru flutt á sviðinu í Fjörheimum frammi fyrir sérstakri dómnefnd sem valdi skemmtilegasta atriðið í 1.-4. bekk og 5. – 7. bekk.

Það var Snorri Rafn Wium Davíðsson sem hlaut verðlaun í yngri flokknum fyrir frábæran söng og systurnar Sesselja og Aðalbjörg Stefánsdætur í eldri flokknum en þær sungu og dönsuðu á eftirminnilegan hátt.

Fyrir skemmtilegasta búninginn fékk verðlaun Emilía Rós Kristófersdóttir sem var trúðastelpa og fyrir skemmtilegasta heimatilbúna búninginn fékk verðlaun Rúna Björg Sverrisdóttir sem var í gervi Crayola litakassa en það er gaman að geta þess að hún hlaut þessi sömu verðlaun í fyrra einnig en þá var hún heimatilbúin pizzasneið.