Nýjast á Local Suðurnes

Fjölbreytt hátíðar- og skemmtidagskrá í Reykjanesbæ á 17. júní

Hátíðar- og skemmtidagskrá í skrúðgarðinum á 17. júní hefst að venju kl. 14:00 með fánahyllingu. Fánahyllir í ár er Axel Jónsson matreiðslumaður. Að því loknu verður hefðbundin dagskrá með ávarpi fjallkonu, ræðum og kórsöng. Þá tekur við skemmtidagskrá á sviði og í garðinum sjálfum. Kvölddagskrá verður í Ungmennagarðinum í umsjón Leikfélags Keflavíkur.

Hlaupið verður inn í 17. júní með víðavangshlaupi knattspyrnudeildar UMFN, sem í ár er 40 ára afmælishlaup . Boðið verður upp á 5 km hlaup og krakkahlaup. Ræst verður frá íþróttavallarhúsi UMFN kl. 11:00 þar sem skráning fer jafnframt fram. Hátíðarguðsþjónusta verður í Ytri-Njarðvíkurkirkju kl. 12:30 og að henni lokinni ganga Heiðarbúar frá skátaheimili félagsins að hátíðarsvæði í skrúðgarði undir blæstri frá lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Dagskrá þar hefst kl. 14:00 og stendur fram eftir degi.

Kaffisala Kvenfélags Keflavíkur og körfuknattleiksdeilda félaganna í Reykjanesbæ er á sínum stað og opið er í Rokksafni Íslands, Hljómahöll.

Þá er opið í Duus Safnahúsum kl. 11:00 – 18:00. Ókeypis aðgangur er í söfnin í tilefni þjóðhátíðardags.

Hér má lesa nánar um þjóðhátíðardagskrá í Reykjanesbæ 2017