Nýjast á Local Suðurnes

Fimm eiga möguleika á 100.000 króna styrk til að skemmta öðrum

Þeir sem hafa áhuga á að standa fyrir viðburði, uppákomu, tónleikum, námskeiði, smiðju eða einhverju öðru skemmtilegu á Ljósanótt geta sótt um styrk til verkefnisins upp á 100.000 krónur.

Menningarráð Reykjanesbæjar býður einstaklingum eða hópum fimm 100.000 króna styrki fyrir framkvæmd á vel útfærðum og góðum hugmyndum að viðburðum fyrir gesti Ljósanætur. Skilyrði er að verkefnin séu framkvæmd af styrkþegum sjálfum (þ.e. að styrkir séu ekki nýttir til kaupa á utanaðkomandi atriðum) og að þau séu í þágu íbúa og gesta á Ljósanótt. Styrkurinn er hugsaður til að greiða fyrir kostnað við framkvæmd viðburðar og er greiddur eftir að viðburður hefur farið fram.

Suðurnes.net greindi frá því á dögunum að Menningarráð ætti auka milljón krónur í sjóði, en rætt var um milljónina á fundi ráðsins og í kjölfarið var ákvörðun tekin um að 500.000 krónum verði úthlutað í menningartengd grasrótarverkefni á Ljósanótt þar sem bæjarbúar skemmta bæjarbúum.

Umsóknir skulu sendar á netfangið ljosanott@ljosanott.is fyrir 12. ágúst. Fram þarf að koma:

  • Lýsing á fyrirhuguðu verkefni
  • Útfærsla á framkvæmd (hvar, hvenær og fyrir hverja verkefnið er hugsað)
  • Gróf kostnaðaráætlun
  • Upphæð styrkumsóknar

Umsóknarfrestur er til 12. ágúst og úthlutun liggur fyrir 19. ágúst.