Nýjast á Local Suðurnes

EM-Skjárinn mæltist vel fyrir – “Þakklát fyrir stuðninginn.” Segja forsvarsmenn

Hátt í tvö þúsund manns horfðu á þá leiki sem sýndir voru á EM-Skjánum sem staðsettur var í skrúðgarðinum í Keflavík á meðan landslið Íslands var við keppni á Evrópumótinu í knattspyrnu. Leikir Íslands voru, eins og gefur að skilja langvinsælastir, en flestir lögðu leið sína á leik Íslands og Englands, en forsvarsmenn skjásins áætla að hátt í 700 manns hafi mætt á þann viðburð.

“Við eru afar þakklát fyrir þann stuðning sem við höfum fengið í þessu verkefni,” segja forsvarsmenn EM-Skjásins í spjalli við Suðurnes.net “Íbúarnir sem mættu og sköpuðu stemninguna, Umhverfiðssvið Reykjanesbæjar, bæjarstjórinn, fulltrúar Sýslumanns og forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem lögðu okkur lið eiga sérstakar þakkir skildar, ásamt þeim einstaklingum sem styrktu okkur. Án þessa fólks hefði þetta ekki tekist.”

emskjar3

Hugmyndin að EM-Skjánum kviknaði um miðjan maí og menn gerðu sér ekki grein fyrir hversu mikið og stórt verkefnið væri, en þrátt fyrir það eru menn klárir í næsta verkefni.

“Þetta var töluvert meira mál en við töldum í fyrstu, enda komu upp smávægilegir byrjunarörðugleikar, en við náðum að koma þessu í gagnið fyrir fyrsta leik íslenska liðsins.”

“Nú er kvennalandsliðið vonandi að tryggja sér sæti í lokakeppni EM, sem fram fer á næsta ári og það er aldrei að vita nema EM-skjárinn fari upp þá.”