Nýjast á Local Suðurnes

Dagskrá Ljósanætur farin að taka á sig mynd – Bæjarstjórnarbandið stígur á svið

Blöðrum verður ekki sleppt við setningarathöfnina að þessu sinni

Dagskrá Ljósanætur verður að mestu leyti með hefðbundnu sniði þetta árið, þó ekki verði blöðrum sleppt við setningarathöfnina eins og gert hefur verið frá upphafi, þó er ljóst að um 2.000 börn úr skólum sveitarfélagsins munu mæta fylktu liði í skólalitum hvers skóla, líkt og ár hvert.

Þá verða fastir liðir eins og árgangagangan, sögugangan, bryggjuball og flugeldasýning á dagskránni, auk þess sem Bæjarstjórnarbandið mun koma fram á bryggjuballi við Duus-hús, þar sem kjötsúpa frá Skólamat verður í boði fyrir gesti og gangandi.

Á Nesvöllum verður að venju boðið upp á harmonikkuball, sögukvöld og opinn danstíma.  Að venju verður svo blönduð fjölskyldudagskrá á útisviðinu á laugardegi Ljósanætur.

Með blik í auga verður sett á svið í sjötta sinn á komandi Ljósanótt í Reykjanesbæ. Þessi viðburður hefur fest sig í sessi sem nokkurskonar upphaf Ljósanætur á hverju ári og jafnframt sem lokaviðburður hátíðarinnar.

Með blik í auga VI verður eins og undanfarin ár með þrjár sýningar. Annars vegar eina sýningu á miðvikudeginum fyrir Ljósanótt og svo tvær sunnudagssýningar í lok Ljósanætur.

Á heimasíðu hátíðarinnar kemur fram að ekki verði upplýst strax hvaða söngvarar taka þátt í uppfærslunni, annað en að þeir eru úr íslenska tónlistarlandsliðinu.

Á vefsíðu hátíðarinnar er að finna dagskránna og hagnýtar upplýsingar um allt sem tengist hátíðinni.