Nýjast á Local Suðurnes

Bjartmar og Bubbi lesa ljóð í Bókasafni Reykjanesbæjar

Listamennirnir Bjartmar Guðlaugsson og Bubbi Morthens ætla að lesa úr ljóðum sínum fyrir gesti safnsins þann 3. maí næstkomandi klukkan 20. Þá þarf vart að kynna en þeir hafa verið áberandi á sjónarsviði íslenskrar tónlistar í fjöldamörg ár.

Bubbi Morthens hefur gefið út tvær ljóðabækur Öskraðu gat á myrkrið sem kom út árið 2015 og Hreistur sem kom út árið 2017.

Hreistur eftir Bubba Morthens er áhrifamikill ljóðabálkur um það umhverfi sem mótaði listamanninn Bubba – sjávarþorpin, verbúðirnar, fiskinn, kuldann, hörkuna. Í leitinni að upprunanum, því sem mótaði þann Bubba sem allir þekkja, lítur hann til þess tíma þegar hann fór þorp úr þorpi, verbúð úr verbúð, frystihús úr frystihúsi og stritaði, djammaði, stritaði meira. Engin miskunn, þúsund þorskar og þúsund farandverkamenn og konur sem þokuðust nær og nær … hyldýpinu?

Hreistur er hörkubók í margvíslegum skilningi: pólitísk, meitluð, sláandi, og Bubbi birtist okkur enn einu sinni sem ótrúlega fjölhæfur, skarpskyggn og heillandi listamaður.

Öskraðu gat á myrkrið – 33 óbundin ljóð, meitluð og kröftug, þar sem dregnar eru upp sláandi myndir af hörðum heimi; svörtum martraðarheimi vímu og ótta, og öskrinu sem óhjákvæmilega brýst út og klýfur myrkrið.

Bjartmar – Þannig týnist tíminn kom út fyrir jólin 2016. Í bókinni segir Bjartmar sögur úr æsku sinni sem lýsa tíðaranda og mannfólki í íslensku samfélagi.

Bókina prýða frábærar myndir Bjartmars auk fjölda ljóða og söngtexta.

Bjartmari er margt til lista lagt og hefur hann fengist við lagasmíðar, textasmíðar, ljóðlist, myndlist og sagnagerð í fjölda ára.

Bækurnar allar hafa verið gífurlega vinsælar hjá lesendum safnsins og eru að sjálfsögðu allir hjartanlega velkomnir, enginn aðgangseyrir.

Boðið verður upp á kaffi og súkkulaði.