Nýjast á Local Suðurnes

Arnar Dór í Hljómahöll á fimmtudagskvöld – Örfáir miðar eftir!

Söngvarinn og Keflvíkingurinn Arnar Dór Hannesson hefur lengi stefnt að því að halda tónleika í Hljómahöll, enda á æskuslóðum, og nú er komið að því. Fimmtudagskvöldið 11.maí verða tónleikarnir Hittumst í draumi þar sem fólki gefst kostur á að kynnast þessum yndislega söngvara betur. Í tilkynningu á Facebook-síðu söngvarans kemur fram að örfáir miðar séu eftir á tónleikana.

Margir þekkja Arnar Dór eftir skemmtilega framkomu hans í sjónvarpsþættinum THE VOICE ÍSLAND í vetur, þar sem hann endaði í 2. sæti. Hann algjörlega söng sig inn í hjörtu landsmanna með einlægni, húmor og krafti.

Arnar Dór ólst upp í Keflavík og bjó þar þangað hann var 21 árs. Hann lærði söng í Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólanum Hjartans Mál.

Arnar hefur komið víða við í tónlistinni. Hann hefur t.d. verið í KÓR LINDAKIRKJU í mörg ár undir stjórn Óskars Einarssonar og hafa þeir unnið mikið saman. Hann hefur tvívegis sungið á stórtónleikunum MEÐ BLIK Í AUGA í Reykjanesbæ og einnig verið í hljómsveitinni FAMINA FUTURA. Svo hefur Arnar einnig komið fram á fjölmörgum skemmtunum, tónleikum, árshátíðum og brúðkaupum um land allt síðast liðin ár.

Tónleikarnir HITTUMST Í DRAUMI eru nefndir eftir nýjasta lagi Arnars sem kemur út í vor og verður að sjálfsögðu flutt á tónleikunum ásamt mörgum öðrum perlum, m.a. BRIDGE OVER TROUBLED WATER, HUMAN, A SONG FOR YOU o.fl. Hér verður ekkert gefið eftir því með honum á sviðinu verður frábær hljómsveit skipuð af tónlistarmönnum í meistaradeildinni.

Miðaverð er 2.700 kr. Miðasala á hljomaholl.is og tix.is.