Nýjast á Local Suðurnes

80 nemendur útskrifuðust frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 21. maí. Að þessu sinni útskrifuðust 80 nemendur; stúdentar voru 56, 24 luku starfs- eða verknámsprófi af hinum ýmsu brautum, flestir af listnámsbraut eða 6 og 5 af sjúkraliðabraut. Þá luku 9 nemendur prófi af starfsbraut.

Dagskráin var með hefðbundnu sniði, Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Skólinn fagnar 40 ára afmæli í haust og var því verið að slíta 80. önninni í sögu skólans.  Svo skemmtilega vildi til að við þessa útskrift var 5000. nemandinn útskrifaður frá skólanum.  Það var Einar Ingi Kristmundsson sem lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut og fékk hann blómvönd í tilefni þessa áfanga.

Að venju voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og fékk Bjarki Jóhannsson þær flestar að þessu sinni, hann fékk viðurkenningar fyrir árangur sinn í stærðfræði, spænsku og eðlis- og efnafræði.  Hann fékk einnig gjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði og frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir árangur í raungreinum.  Bjarki fékk síðan gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum.  Bjarki hlaut einnig raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík en þau hlýtur sá nemandi sem nær bestum árangri í raungreinum á stúdentsprófi.  Þá afhenti Kristján Ásmundsson skólameistari Bjarka 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift. Bjarki fékk einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Á heimasíðu skólans er að finna vel á annað hundrað myndir frá útskriftinni.

UtskriftV fjolbraut1